Friday, March 28, 2014

Innlit til Brynhildar


Góðvinkona mín hún Brynhildur Kristín hefur einstaklega skemmtilegan stíl og góðan smekk á hlutum.  Ég kynntist Brynhildi þegar við byrjuðum í menntaskóla og urðum við fljótt perluvinkonur.  Hún hefur alltaf haft gott auga fyrir fallegum hlutum og því sem er inn hverju sinni.  Hún útskrifaðist árið 2011 úr Borgarholtsskóla og stundar núna nám við hönnunar og handverksskkólann á almennri hönnunarbraut.  Ég fékk að taka smá viðtal við hana og leyfi til að sýna ykkur nokkrar myndir af heimilinu hennar og fallegum útstillingum.


Áttu þér einhvern uppáhalds hönnuð?
- Ég er hrifin af mörgum og á mér kannski ekki einn uppáhalds.  En ég er t.d rosalega hrifin af Le Corbusier, hann hefur gert marga fallega og tímalausa hluti sem að eru mjög ofarlega á mínum óskalista.  Svo er ég líka mjög hrifin af skandínavískri hönnun.

Hvernig myndir þú lýsa stílnum heima hjá þér ?

- Ég blanda rosalega mikið saman, og sanka af mér dóti héðan og þaðan. Mér finnst mjög gaman að blanda saman gömlum og nýjum hlutum svo stíllinn er rosalega mikið bland í poka. Mér finnst það heimilislegra og hlýlegra fyrir vikið.Hverjar eru top þrjár verslanirnar þínar ?
- Mér finnst ekkert leiðinlegt að fara í Epal og Casa og láta mig dreyma. Svo þær eru klárlega top 2 uppáhalds. En búðirnar sem ég versla hvað mest í á Íslandi eru Ilva, Líf og list, Hrím, Søstrene Grene, Tiger og svo má ekki gleyma Góða hirðinum, mér finnst fátt jafn skemmtilegt og að kíkja á nytjamarkaði.

Hvað er uppáhalds hluturinn þinn ?
- Úff, mér þykir eiginlega vænt um allt sem ég á. Enda er ég mesti safnarinn. En það sem mér þykir vænst um er gamall antík skápur sem ég erfði eftir ömmu mína.

Antík skápurinn sem Brynhildur erfði eftir ömmu sína.
Stytturnar ofan á skápnum eru eftir Guðmund frá Miðdal.Hvað kaupir þú alltaf þó þú eigir nóg af því ?

- Ég er algjör sökker fyrir kertastjökum og lömpum. Ég held ég eigi nóg af þeim út lífið og það er alltaf að bætast í safnið.Ef þú mættir velja þér fimm hluti inn á heimilið þitt hverjir yrðu þeir ?
Númer 1. HAY Tray table, Fæst í Epal.
Númer 2. PH 3½-3 kopar ljósið, fæst einnig í Epal.
Númer 3. Stelton kopar kaffikanna, fæst í Líf og List.
Númer 4. Legubekkurinn LC4, eftir Le Corbusier, fæst í Casa.
Númer 5. SMEG ísskápur í mintugrænum lit, fæst í Eyrberg.
Eins og þið sjáið hefur Brynhildur dýran og classy smekk. En hvar sér hún sjálfa sig í framtíðinni ?

- Ég stefni á nám í grafískri hönnun. Ég er mjög heit fyirr því að fara út í nám. Svo er bara spurning hvað ég geri að námi loknu, en ég held að það séu fullt af frábærum möguleikum í boði og ég bíð bara spennt.Brynhildur býr í fallegri blokkaríbúð í Grafarvoginum og er með einstaklega flottan og fjölbreyttan stíl.  Hún er með gott hugmyndaflug þegar kemur að útstillingum og að gefa gömlum hlutum nýtt og betra líf.  Ég ætla að deila með ykkur nokkrum myndum sem ég fékk að smella af útstillingum heima hjá henni.
Hún bjó sjálf til plaggat og setti í ramma, kemur einstaklega vel út.

Stóra hausinn keypti hún í ILVU og litlu í Søstrene Grene.

Á veggnum fyrir aftan er hún með Topshop poka, og tvö grafísk plaggöt sem hún gerði sjálf. Topshop pokann dröslaði hún með sér heim frá London, svo glöggt er listamanna auga hennar og sá hún strax notagildi í pokanum. Kimmiedoll er úr ILVU, kertastjakinn er úr Koziol, og hauskúpan er úr Urban Outfitters.

Kertin á bakkanum gerði hún sjálf


Vasar frá Glit
 image
Þessa gifsplatta frá Royal Copenhagen fann Brynhildur í Góða Hirðinum og málaði þá með akrílmálingu. Kemur rosalega fallega út.

Hún er líka rosalega lagin við að gera hálsmen, armbönd og fleira fallegt úr tréperlum.
Hér er pottaleppur eftir hana.

Mögulega fallegasti kökudiskur sem ég hef séð.

Sniðug hugmynd að raða varalitunum í Iittala skál

Kartell lampi, fæst í Líf og list & Casa Brynhildur er mjög hrifin af Heico lömpum, þeir gefa frá sér hlýlega birtu.  Printin á veggnum eru eftir Juliu Mai og fást myndirnar í Hrím.


Uppáhalds litirnir hennar Brynhildar eru pastel litir.  Hér er einn af uppáhalds stöðunum hennar Brynhildar á heimilinu.Brynhildur er fyrirmyndar hundaeigandi. Litla dekurrófan hennar er þriggja ára Papillon og Poodle blanda sem heitir Noel.  Noel nýtur þess að vera baðaður með öllum bestu snyrivörum fyrir hunda og óhætt er að segja að Brynhildur passi vel uppá að úrvalið sé alltaf nóg.

Ég þakka Brynhildi fyrir spjallið. Þið getið fylgst með henni á Instagram síðunni hennar HÉR og ef þið hafið einhverjar spurningar til hennar er ykkur frjálst að senda henni línu á brynhildurkristin@hotmail.com.

Thursday, March 27, 2014

Litríkar Rjómakaramellur

Það er alltaf jafn mikið vesen á mér eftir að sá stutti fer að sofa á kvöldin. Haukur er hættur að spyrja mig hvað ég sé að gera þegar ég hverf inn í eldhús og fer að vesenast. Í gær datt ég í einhvern nammigír, ekki til að éta, heldur til að búa til. Skellti í pott karamellu uppskrift og skreytti þær svo með að pakka þeim inn í skrautleg muffinsform. Ætla að deila því með ykkur.
Þær eru nú ekki hollar þessar elskur en þær eru æðislega góðar og bráðna í munni. Enda er maður ekki að borða tíu stykki í einu, bara aðeins að narta. Eða ég mæli allavega ekki með því að borða of mikið í einu, uppá mallann að gera !

Rjómakaramellur

1 dl sykur
1 dl rjómi
1 dl sýróp
1 tsk vanilludropar
2 msk smjör

Allt fer þetta saman í pott á vægan hita. Látið malla í góðan hálftíma ef ekki lengur. Þetta tekur svolítinn tíma að þykkna, það kraumar í blöndunni og hún dökknar, passið að hræra reglulega í. 


Á meðan blandan þykknaði klippti ég niður muffins form í ferhyrninga til að pakka karamellunum í.
Já ég geng alltaf aðeins yfir strikið og notaði sléttujárn til að slétta úr pappírnum eftir að ég klippti hann ! Þannig er auðveldara að pakka þeim inn.Ef þú setur kalt vatn í glas og smá af karamellunni út í glasið og hún sekkur á botninn er hún ekki tilbúin. En ef karamellan verður stíf í vatninu og þú getur tekið hana upp og mótað hana þá er hún tilbúin. Það er líka hægt að nota þessa uppskrift sem sósu út á ís eða köku og þá tekur þetta styttri tíma. 
Þegar karamellan er tilbúin, setti ég smjörpappír á pönnu og hellti blöndunni á. Lét standa í nokkrar mínútur meðan hún kólnar og stráði svo Maldon salti yfir. Síðan færði ég smjörpappírinn á disk og inn í ískáp. Klukkan var orðin svo margt að ég fór að sofa og leyfði þessu að bíða yfir nótt í ískápnum.


Svo þegar ég vaknaði í morgun var karamellan orðin stíf og köld og þá skar ég hana í bita og pakkaði henni inn í pappírinn. Og nú á ég fullt af fallegum karamellum í skálinni minni og eitt stykki vel klístrað eldhús :)

Njótið !

Wednesday, March 26, 2014

Vikan í myndum

Afsakið innilega þetta bloggleysi síðastliðna tæpa viku. Við skutumst upp í bústað í Biskupstungum með tengdó síðustu helgi og erum búin að vera í hálfgerðu át-nammi-óhollustu móki síðan þá. Ó það var étið og étið og spilað og sofið og étið meira. Þetta var eiginlega of næs. Að komast aðeins út í sveit. Ætla bara að leyfa ykkur að sjá myndir í þetta skiptið, ég lofa svo að koma með eitthvað nýtt og krassandi á morgun fyrir ykkur.
Wednesday, March 19, 2014

Guðdómlegur & hollur súkkulaðibúðingur

Ég hef svo oft séð þessa uppskrift á netinu, og alltaf bara grett mig og flétt framhjá henni. Mér fannst hún aldrei einhvernveginn hljóma vel. Jú svo ákvað ég að prófa hana fyrir nokkrum mánuðum síðan en eitthvað fór úrskeiðis og allt eldhúsið mitt varð ein stór súkkulaði klessa. Haukur var að benda mér á kakóslettur í loftinu bara í síðustu viku.
En svo í gærkvöldi þegar strákarnir mínir voru farnir að sofa þá sat ég ein frammi í stofu og horfði á Friends. Ég gat ekki hugsað mér að fara að sofa klukkan 22, það er allt of snemmt. Svo mikill næturhrafn er ég. Svo allt í einu langaði mig í súkkulaði. Sem er ekki frásögufærandi því mig langar alltaf í súkkulaði. En nei ekkert slíkt til á þessu heimili í miðri viku svo ég leiddi hugann að einhverju öðru. Þegar ég segi einhverju öðru þá meina ég að sjálfsögðu; Hvað get ég búið til sem er með súkkulaðibragði og er ekki óhollt. Já, það var víst kominn tími á tilraun númer tvö af þessum Lárperu súkkulaði búðing. Ég átti allt sem til þurfti og dreif mig í þessu og sé sko ekki eftir því.

María, Jósef og allir heilagir. Ég get alveg sagt það samviskusamlega að þessi er betri en Royal pakkabúðingurinn úti í búð. Ég sé hann í hyllingum akkurat núna og mig langar í meira. Svo góður var hann. Og já, ef þú hugsaðir ''Oj nei'' þegar þú opnaðir linkinn og sást að það er avocado í þessari uppskrift og ýttir á exið, grey þú því það er sko ekki hægt að finna að það sé avocado í þessum himneska búðing.

verði ykkur að góðu !
Þessi uppskrift dugir fyrir 1-2 fullorðna. 
Uppskriftin hentar einnig vegan-diet.

1 stórt vel þroskað og mjúkt Avocado.
1/4 bolli ósætt kakóduft/raw kakóduft
1/4 bolli kókosmjólk eða möndlumjólk
3 tsk agave sýróp
1 tsk vanilludropar
Allt sett saman í matvinnsluvél (töftasproti eða blandari er í lagi líka) og mixað saman í 2-3 mínútur eða þar til blandan er orðin mjúk og laus við kekki. Ef þú vilt frekar nota venjulega mjólk þá máttu það líka í stað kókosmjólkur eða möndlumjólkur. Einnig getur þú leikið þér með agave sýrópið svolítið og vanilludropana ef þú vilt hafa þetta sætara eða minna sætt. Jafnvel skipta agave sýrópinu út fyrir stevia dropa. Í mínu tilfelli þeytti ég smá rjóma en það þarf ekki. Toppið svo búðinginn með því sem ykkur langar í, möndlum, berjum, kakónibbum, kókosflögum eða hverju sem er.


Mmmmmmmm.. Verði ykkur að góðu !Monday, March 17, 2014

Vatn

Hvað er ég nú að fara að ybba gogg ? Vatn ? Vita ekki allir að vatn er undradrykkur og lífsnauðsynlegur öllum lifandi lífverum ? Jújú alveg örugglega. En aldrei er góð vísa of oft kveðin ;-)
Vatn er jú, eins og ég sagði lífsnauðsynlegur drykkur og allt það. 60% líkamans er vatn og erum við allan daginn að losa okkur við vökva í gegnum þvag og svita. Líkaminn býr ekki yfir neinum geymslubúnaði fyrir vatn og því þurfum við helst alltaf að vera að sötra vatn, allan daginn, jafnvel þó svo að við séum ekki þyrst. Heilbrigðisyfirvöld mæla með sirka 8 glösum á dag eða 2 lítrum. En eins og með allt annað er þetta einstaklingsbundið og það fer allt eftir hverjum og einum. Ef við drekkum ekki nægju okkar af vatni á daginn þá verðum við orkuminni og heilinn okkar starfar ekki sem skyldi. Ef þú æfir mikið þá þarftu ennþá meira vatn þar sem vökvatapið verður meira á meðan líkamleg æfing á sér stað. Rannsakendur áætla að tveggja lítra vatnsdrykkja á dag geti aukið brennslu um sirka 96 hitaeiningar á dag.

Sjálf hef ég alla tíð drukkið mjög mikið vatn og tekið vatnið framyfir gos og aðra drykki. En síðastliðið ár hefur það heldurbetur breyst ! Ætla nú ekki að fara að kenna manninum mínum um það hér í beinni en allt í einu fór ég að skilja vatnsbrúsann eftir heima og stoppa frekar í búð og kaupa mér pepsi max eða kristal plús. Pepsi max... óóó pepsi max. Það er stóra ástin í lífi mínu. Það er minn koffíngjafi númer eitt og ég viðurkenni fúslega að ég er hooked. Fyrir nokkru síðan áttaði ég mig á því að ég hafði ekkert vatn drukkið yfir daginn en þónokkuð af maxinu. (Auðvitað er vatn í gosinu en ekki í réttu formi og auk þess er koffín vatnslosandi.) En þá fannst mér nóg komið og setti mér ''vatnsdrykkjuskilyrði''. Ég var enda við að klára seinasta sopann af pepsi max flöskunni inni í ísskáp og nú verður bara vatn þar til á laugardaginn næsta. Ég skal lofa ykkur því að fimm mínútum eftir að ég ''puplisha'' þessum póst fæ ég skilaboð frá hinum pepsi max fíklinum, minni kæru vinkonu. Og á hún heldur betur eftir að lesa mér pistilinn.

Hvað um það. Ég byrja morguninn alltaf á volgu vatnsglasi með sítrónu út í. Það hreinsar líkamann mjög vel. Svo er ég farin að setja allskonar frosna ávexti út í vatnið mitt og svei mér ef það verður bara ekki betra svoleiðis. Segi það kannski ekki alveg en fallegra verður það, og girnilegra ! Það er alveg ljóst. Nú skora ég á ykkur hin, sem eruð gosdrykkjufólk frekar en vatnsdrykkjufólk að prófa að breyta yfir. Ég finn allavega mun á orkunni út daginn þrátt fyrir að hafa verið að drekka koffíndrykk allan daginn. Ætla að deila með ykkur nokkrum myndum svo þið sjáið hvað ég er að tala um þegar ég segi að þetta sé fallegra og girnilegra.
Ekki verra að hafa það í svona krukkum, verður allt mikið fallegra svoleiðis.


Þessi elska kemur með mér inn í kvöldið ásamt hafrakexinu góða.
Með mango og hindberjum. 
Ég mæli líka með; Appelsínu og bláberja, Jarðaberja og mintu og sítrónu og agúrku.
Eigið gott kvöld elskurnar.

P.s ég var að bæta við hnöppum efst á síðunni, facebook (þar sem þið getið like-að facebook síðu bloggsins), instagram, email og pinterest.Saturday, March 15, 2014

Friday Funday

Það eru nokkrar manneskjur í lífi mínu sem ég held mikið uppá og myndi gera allt fyrir. Ein af þeim manneskjum er hún mamma mín. Það er því synd að ég búi ekki í sama bæjarfélagi og hún því ég þarf í minnstalagi að heyra í henni einusinni daglega, helst hitta hana líka. Í gær ákváðum ég og Aron að fara í vinnuna til mömmu/ömmu og draga hana með okkur að versla og hafa gaman. Það tókst að sjálfsögðu en fyrst þurfti Aron minn að að heilla allar konurnar í fyrirtækinu þar sem mamma vinnur, hreinlega alveg upp úr skónum með brosinu sínu. Við byrjuðum á því að fara í IKEA. Þar er alltaf gaman að skoða og fundum við sitthvað til að kaupa. Sá stutti græddi heldur betur á mömmu og ömmu. Ég verð að hrósa Ikea aðeins. Ég fattaði allt í einu að ég hafði gleymt skiptitöskunni í bílnum og það var kominn tími til að skipta á lilla. Heyrðu, viti menn. Ikea býður upp á fríar bleyjur í skiptiaðstöðunni, það fannst mér svakalega sniðugt. En ekki var setið við þar, þegar við fórum á veitingasvæðið þá var okkur bent á það að þau bjóða líka upp á frían ungbarnamat í krukkum. ÆÐISLEGT ! Svo settumst við niður og gæddum okkur á brownies og ís og Aron gulrótarmauki. Að því loknu ákváðum við að kíkja í Góða Hirðirinn. Ég hefði getað verið þarna í marga tíma. Mamma tók Aron í sínar hendur og leyfði mér að gramsa og að sjálfsögðu fengu nokkrir hlutir að koma með mér heim í  makeover. Þegar heim var komið grillaði kallinn svo kjúkling og sætar og ég bakaði þessar fínu súkkulaðimuffins með vanillukremi í eftirrétt. Svona ættu allir dagar að vera !


Oooog gersemarnir sem fengu að kom með heim.
Og eftir meikover !


Nú er officially allt orðið svart og háglans hér heima.
Ætti ég kannski að kaupa mér annað sprey... ?