Saturday, March 8, 2014

Blúndur og föndur

Ég elska að föndra og vesenast. Ef ég hef einhvern frítíma á daginn eða þegar lillinn minn sefur þá fer ég iðulega að föndra eða dunda mér eitthvað og læt uppvaskið eða þvottinn sitja á hakanum. Manninum mínum til mikils ama. Ég er langt frá því að vera hin fullkomna húsmóðir sem skrúbbar og bónar á þessum dauðu tímum. Það er einfaldlega allt annað svo miklu meira spennandi !

Við erum samt svipuð með þetta við hjónakornin, Haukur er algjör handy man og lætur sig oft hverfa inn í bílskúr og bardúsar eitthvað þar. Nú síðast kom hann inn með glænýjan sjónvarpsskenk og hátalara sem hann töfraði út úr erminni á fáeinum tímum, og allt svo fáránlega vel gert !
Oftar en ekki ýtum við hvort öðru út í þetta, ef ég byrja hristir hann hausinn til að byrja með en fáeinum mínútum síðar er hann farinn að gera eitthvað svipað.

Í kvöld meðan drengurinn lék sér svo fallega á leikteppinu og makinn stökk í sturtu var ég að fara yfir gömlu skólatöskuna mína frá því úr snyrtiskólanum. Ég fann nokkur blúndustykki sem ég hafið notað í förðunarlokaprófinu mínu og mundi þá eftir snilldar hugmynd af pinterest sem ég ætla að framkvæma einn daginn. Hana má sjá HÉR. En í þetta skiptið átti ég ekki nóg af blúndu, blöðru né rétta límið svo ég notaði bara það sem ég átti; plastlím og IKEA skál. Kannski ekki frumlegasta eða flottasta DIY sem ég hef gert en kom svona ljómandi vel út og nú á ég litla fallega skál sem getur hýst allt þetta óendanlega smádót sem ég á, sem annars liggur á víð og dreif um alla íbúð. Mitt helsta vandamál eru ömmuspennurnar góðu. Aldrei hefur mér tekist að geyma þær allar á einum og sama staðnum og enda því á að kaupa mér alltaf nýjar og nýjar. Kannski breytist það núna ? 








Það sem þú þarft er; lím (best að nota föndurlím sem þornar glært), plastskál, skæri og blúnduefni.

Ég byrjaði á því að klippa blúnduna til og mátaði á skálina. 
þarf ekki að ná undir hana heldur bara utan um hana.



Penslaði líminu með puttanum yfir blúnduna allan hringinn.
Mjög klístrað, lýg því ekki.
Svo lét ég límið þorna í sirka 10 mínútur
 og þá var blúndan orðin hörð og ég gat tekið hana auðveldlega af skálinni.




Því næst setti ég blúnduhringinn ofan í skálina
og klippti út hringlaga bút fyrir botninn.
Klessti lími á bútinn og límdi í botninn á skálinni.
Leyfði þessu að þorna á meðan ég borðaði kvöldmatinn
og losaði svo botninn varlega frá skálinni.
Það er auðveldara að gera þetta svona því
ef þú límir alla blúnduna innan í skálina þá er erfiðara
að taka hana alla úr í heilu lagi.






Voila ! Krúttlegt og fljótlegt.
Eigið góða helgi elskurnar mínar.



No comments: