Wednesday, March 19, 2014

Guðdómlegur & hollur súkkulaðibúðingur

Ég hef svo oft séð þessa uppskrift á netinu, og alltaf bara grett mig og flétt framhjá henni. Mér fannst hún aldrei einhvernveginn hljóma vel. Jú svo ákvað ég að prófa hana fyrir nokkrum mánuðum síðan en eitthvað fór úrskeiðis og allt eldhúsið mitt varð ein stór súkkulaði klessa. Haukur var að benda mér á kakóslettur í loftinu bara í síðustu viku.
En svo í gærkvöldi þegar strákarnir mínir voru farnir að sofa þá sat ég ein frammi í stofu og horfði á Friends. Ég gat ekki hugsað mér að fara að sofa klukkan 22, það er allt of snemmt. Svo mikill næturhrafn er ég. Svo allt í einu langaði mig í súkkulaði. Sem er ekki frásögufærandi því mig langar alltaf í súkkulaði. En nei ekkert slíkt til á þessu heimili í miðri viku svo ég leiddi hugann að einhverju öðru. Þegar ég segi einhverju öðru þá meina ég að sjálfsögðu; Hvað get ég búið til sem er með súkkulaðibragði og er ekki óhollt. Já, það var víst kominn tími á tilraun númer tvö af þessum Lárperu súkkulaði búðing. Ég átti allt sem til þurfti og dreif mig í þessu og sé sko ekki eftir því.

María, Jósef og allir heilagir. Ég get alveg sagt það samviskusamlega að þessi er betri en Royal pakkabúðingurinn úti í búð. Ég sé hann í hyllingum akkurat núna og mig langar í meira. Svo góður var hann. Og já, ef þú hugsaðir ''Oj nei'' þegar þú opnaðir linkinn og sást að það er avocado í þessari uppskrift og ýttir á exið, grey þú því það er sko ekki hægt að finna að það sé avocado í þessum himneska búðing.

verði ykkur að góðu !




Þessi uppskrift dugir fyrir 1-2 fullorðna. 
Uppskriftin hentar einnig vegan-diet.

1 stórt vel þroskað og mjúkt Avocado.
1/4 bolli ósætt kakóduft/raw kakóduft
1/4 bolli kókosmjólk eða möndlumjólk
3 tsk agave sýróp
1 tsk vanilludropar




Allt sett saman í matvinnsluvél (töftasproti eða blandari er í lagi líka) og mixað saman í 2-3 mínútur eða þar til blandan er orðin mjúk og laus við kekki. Ef þú vilt frekar nota venjulega mjólk þá máttu það líka í stað kókosmjólkur eða möndlumjólkur. Einnig getur þú leikið þér með agave sýrópið svolítið og vanilludropana ef þú vilt hafa þetta sætara eða minna sætt. Jafnvel skipta agave sýrópinu út fyrir stevia dropa. Í mínu tilfelli þeytti ég smá rjóma en það þarf ekki. Toppið svo búðinginn með því sem ykkur langar í, möndlum, berjum, kakónibbum, kókosflögum eða hverju sem er.






Mmmmmmmm.. Verði ykkur að góðu !







1 comment:

Stefanía said...

Hljómar of vel. Verð að prófa þennan.