Thursday, March 27, 2014

Litríkar Rjómakaramellur

Það er alltaf jafn mikið vesen á mér eftir að sá stutti fer að sofa á kvöldin. Haukur er hættur að spyrja mig hvað ég sé að gera þegar ég hverf inn í eldhús og fer að vesenast. Í gær datt ég í einhvern nammigír, ekki til að éta, heldur til að búa til. Skellti í pott karamellu uppskrift og skreytti þær svo með að pakka þeim inn í skrautleg muffinsform. Ætla að deila því með ykkur.
Þær eru nú ekki hollar þessar elskur en þær eru æðislega góðar og bráðna í munni. Enda er maður ekki að borða tíu stykki í einu, bara aðeins að narta. Eða ég mæli allavega ekki með því að borða of mikið í einu, uppá mallann að gera !

Rjómakaramellur

1 dl sykur
1 dl rjómi
1 dl sýróp
1 tsk vanilludropar
2 msk smjör

Allt fer þetta saman í pott á vægan hita. Látið malla í góðan hálftíma ef ekki lengur. Þetta tekur svolítinn tíma að þykkna, það kraumar í blöndunni og hún dökknar, passið að hræra reglulega í. 


Á meðan blandan þykknaði klippti ég niður muffins form í ferhyrninga til að pakka karamellunum í.
Já ég geng alltaf aðeins yfir strikið og notaði sléttujárn til að slétta úr pappírnum eftir að ég klippti hann ! Þannig er auðveldara að pakka þeim inn.Ef þú setur kalt vatn í glas og smá af karamellunni út í glasið og hún sekkur á botninn er hún ekki tilbúin. En ef karamellan verður stíf í vatninu og þú getur tekið hana upp og mótað hana þá er hún tilbúin. Það er líka hægt að nota þessa uppskrift sem sósu út á ís eða köku og þá tekur þetta styttri tíma. 
Þegar karamellan er tilbúin, setti ég smjörpappír á pönnu og hellti blöndunni á. Lét standa í nokkrar mínútur meðan hún kólnar og stráði svo Maldon salti yfir. Síðan færði ég smjörpappírinn á disk og inn í ískáp. Klukkan var orðin svo margt að ég fór að sofa og leyfði þessu að bíða yfir nótt í ískápnum.


Svo þegar ég vaknaði í morgun var karamellan orðin stíf og köld og þá skar ég hana í bita og pakkaði henni inn í pappírinn. Og nú á ég fullt af fallegum karamellum í skálinni minni og eitt stykki vel klístrað eldhús :)

Njótið !

No comments: